230 ár liðin frá Eldmessu
Laugardaginn 20. júlí 2013 voru liðin 230 ár frá því að sr. Jón Steingrímsson prestur á Prestsbakka á Síðu messaði í kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri og söng þar hina frægu Eldmessu sem talin er hafa stöðvað hraunstrauminn sem þá ógnaði byggðinni á Klaustri í Skaftáreldum. Til minningar um þennan atburð efndu Kirkjubæjarstofa og Katla jarðvangur til Eldmessugöngu. Gangan hófst við Minningarkapellu sr. Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri. Þar fylgdi sr. Haraldur M Kristjánsson sóknarprestur í Víkurprestakalli göngunni úr hlaði með minningarorðum um Eldmessuna og Eldprestinn sr Jón Steingrímsson.
Gengið var að Systrastapa en þangað gekk sr. Jón með söfnuði sínum eftir messuna. Þar blasir Eldmessutanginn við augum en svo nefnist hrauntanginn sem þá ógnaði byggðinni á Klaustri. Við Systrastapa flutti Jón Helgason í Seglbúðum ávarp í tilefni dagsins.
Við þetta tækifæri var nýtt fræðsluskilti Kirkjubæjarstofu og Kötlu jarðvangs um Eldmessuna afhjúpað við gönguleiðina að Systrastapa. Gerð fræðsluskiltisins var styrkt af Menningarráði Suðurlands.
Eftir gönguna var þátttakendum boðið að sjá stuttmyndina Eldmessan í Skaftárstofu/félagsheimilinu Kirkjuhvoli og þiggja kaffiveitingar.
Ávarp Jóns Helgasonar 20. júlí 2013
ELDMESSA 20. JÚLÍ 2013.
Ég vil þakka þeim, sem hafa unnið að því að koma upp þessum vegvísi að Eldmessutanga og beina þannig athygli okkar og umhugsun að þeim atburðum, sem þar gerðust . Þann 20. júlí árið 1783 hafði glóandi hraunstraumurinn úr Lakagígum verið í rúmlega mánuð að ryðjast fram úr Skaftárgljúfri og komst reyndar strax í fyrstu vikunni langleiðina til sjávar. Síðan kom hvert eldkastið eftir annað, en þau dreifðust þá meira yfir sléttlendið, m.a. austur með Síðuheiðum með gífurlegu umróti, þar sem eldurinn stóð upp úr hinum mörgu gerfigígum.
Í Eldritinu segir sr. Jón, að þann 2. júlí kom eldur upp úr hrauninu og kveikti í því, sem eftir var af bænum Skál. Síðan hélt sá eldur áfram austur með Skálarheiðinni. Stóð eldsloginn upp úr gömlu gerfigígunum, þangað til eldhraunið hafði einnig farið yfir bæinn í Holti og stíflað Holtsá austur undir Holtsheiði. Gífurleg rigning var næstu daga, svo að lónið í Holtsdalnum óx ört, á meðan eldflóðið hélt áfram og komst þann 13. júlí í farveg Skaftár fyrir ofan Stapafoss.
Síðan segir sr. Jón um framhaldið:
“Þann 14. júlí, sama dag og eldurinn fór ofan fyrir fossinn, kom í fjórða og nú síðasta sinn eitt hræðilegt eldframkast úr gjánni frá Lakagígum með suðu og braki og brestum og þvílíkum undirgangi, allt ætlaði um koll, sem jók hér svo mikið eldslög og skruggur, að varla varð andartak dægrum saman. Eldglossið lék um menn utan húsa og innan; þó fékk enginn þar af bráðan dauða. Alla þá viku sást hvorki til lofts né sólar það minnsta af þeirri þykku reykjareldgufu og svælu, er hér lá yfir. Mest gekk hér svo á þann 18. júlí; því þá þenkti ég ei annað, en allt mundi fram steypast og kolfalla. Ætla ég að þá hafi hér á Síðu engin manneskja getað sofnað væran eður óhultan dúr þess vegna”.
Þannig voru aðstæðurnar hjá íbúum héraðsins, þegar þeir héldu til Eldmessunnar 20. júlí 1783, þegar sú mikla tilviljun varð, eins og nú er gjarnan sagt, að eldflóðið innan úr Lakagígum stöðvaðist skyndilega. En hefur það ekki hent okkur flest, að telja að eingöngu tilviljun hafi ráðið því, ef eitthvað, misjafnlega mikilvægt, hefur snúist til betri vegar en á horfðist.
Í því sambandi hafa mér sérstaklega orðið ofarlega í huga nokkrar frásagnir fólks, sem lifði hinar miklu hamfarir stóra Kötlugossins 1918. Eftir Grímsvatnagosið síðasta er auðveldara að skilja lýsingar “gamla fólksins” á afleiðingum Kötlugossins með myrkri um miðjan dag. Hins vegar er tilviljun ennþá almenna skýringin á ýmsum ógnum hins gífurlega hamfarahlaups 1918, sem blasti þá við mörgum. Því vakna enn spurningarnar:
*Var það tilviljun hjá sláturhúsinu í Vík, þar sem slátrun lamba stóð yfir, að vegna
brims hafði ekki verið hægt að fá salt í kjötið? Þess vegna þurfti að stöðva þar
slátrun, svo að á gosdaginn sátu heima mennirnir, sem þann dag áttu að reka
sláturlömbin úr Landbroti vestur yfir Mýrdalssand’
*Var það tilviljun að bóndinn í Ásum í Skaftártungu lagði ríka áherslu á það við tvo
vinnumenn sína, sem fóru gosdaginn yfir Mýrdalssand til Víkur, að stansa alls
ekki í Hafursey, eins og þá var talin sjálfsögð skylda?
*Var það tilviljun að Jóhann í Hrífunesi, smalamaður með Álftveringum suður á
Mýrdalssandi, komst undan hlaupinu? Jóhann hafði snúið við strax þegar hann sá
það og hljóp eins og hann gat langa leið upp að Hólmsá. Kötluhlaupið var þá
komið að brúnni, en Jóhann hljóp hiklaust yfir og slapp. Hundurinn fylgdi fast á
hæla honum, en lenti í flaumnum, þó að hann kæmi samt heim að Hrífunesi að
morgni.
*Var það tilviljun að smalamenn úr Álftaveri, sem voru uppi á Mýrdalssandi, en
riðu strax undan hlaupinu suður í Ljósuvötn og komust þaðan upp á
Skálmabæjarhraun? En þegar þeir litu þaðan til baka voru förin aftan við þá
horfin undir hlaupið.
*Var það tilviljun, að Þuríður, systir Jóhanns í Hrífunesi, húsfreyjan á bænum
Söndum á Bæjarhólmanum í Kúðafljóti, komst með naumindum með börn sín
upp á austurbakkann, áður en hlaupið ruddist þar fram og fyllti farveginn?
Það var einlæg sannfæring þeirra, sem heitt og innilega höfðu beðið fyrir þeim, er lentu í hinum mikla háska þennan dag, að þar hafi önnur öfl en tilviljun skift sköpum um þær sekúndur eða fáu mínútur, sem þar riðu baggamuninn. Þeir hafa áreiðanlega frekar byggt á reynslu og trú séra Jóns Steingrímssonar eins og hann lýsir m.a. í eftirfarandi frásögn í Eldritinu haustið 1785.
“Tilskikkar þá stiptamtmaður að drífa hingað alla aumingja þá, sem tórandi voru hér í þremur sýslum fyrir vestan, sem engan áttu þar að, hvað og svo vægðarlaust var framkvæmt. Þessi flokkur varð hér um 40 manns. Hér voru þá engin önnur úrræði, en setja þá niður til dráps, því þeir fyrir voru gátu ei vegna matareklu tekið á móti þeim. 16. október, sem var sunnudagur beiddum vér guð opinberlega að veita oss nú og þessum vesalingum einhverja líkn. Tókum svo ráð saman að fara austur á Hverfisfjörur, ef ske kynni að guð leggði oss til sel eður annað til lífs; komum svo þangað fjórir þann 21. Var þar þá fyrir einn maður, bóndi frá Skaftafelli, er Eiríkur hét, er á Núpstaðarfjöru (þó í aðgæsluleysi af fjörumörkum) hafði slegið með tveim drengjum á þeim degi 70 brimla eður stórseli og 120 kópa, sem var eitt hið mesta drottins náðarverk, að hann lét þessar skepnur gefast svo í hendur einum manni og honum krafta til svoddan þrekvirkis, sem varla mun finnast dæmi til. Þurftum við ei annað fyrir að hafa, að taka hér upp á hestana þurran hlut á landi, sem varð nærfellt upp á 150 hesta, fyrir utan sláttuhlutann (bóndans í Skaftafelli), sem þó var ríflegur. Embættaði ég þá á Kálfafelli í besta blíðskaparveðri, er oss þennan tíma veittist, og þökkuðum allir guði sína náð, er oss svo ríkulega forsorgun veitti á þeirri eyðimörk, sem ánægjulega burttók alla hungursneyð og dauða er annars lá við borð”.
Í þessum orðum kemur fram hin örugga vissa sr. Jóns Steingrímssonar um hvað við getum með hugsunum okkar, orðum og gjörðum haft mikil áhrif á það umhverfi sem við þannig sköpum okkur.
Hjá sr. Jóni kemur svo skýrt fram, hvað réttar hugsanir og kærleikurinn til náungans í orði og verki skiftir sköpum fyrir betra mannlíf og farsæla framtíð.
Jón Helgason.