Katlawelcome

Fólkið sem er í forsvari fyrir Kötlu jarðvang fær oft þessa spurningu; "hvað er jarðvangur?" 

Við þessari spurningu eru mörg svör og hér að neðan má sjá samantekt á því...

Hvað er jarðvangur (Geopark)?

 • Tákn um gæði í náttúrutengdri ferðaþjónustu – virðing fyrir náttúrunni.
 • Svæði sem innihalda alþjóðlega merkilegar jarðminjar. Markmið okkar er að fræða um þær og stuðla að verndun þessara merkilegu svæða.
 • Svæði sem eru sérlega áhugaverð vegna t.d. vísindarannsókna, fræðslugildis, fjölbreytileika, sjaldgæfra jarðminja.
 • Staðir innan svæðisins sem tengjast fornleifum, sagnfræði, menningu, vistfræði og lífríki.
 • Bæta viðhorf og þekkingu fólks á jarðminjum og náttúru, byggja upp jarðferðamennsku og styðja þannig við efnahagslega framþróun svæðisins.
 • Skilyrði að sveitarfélög séu þátttakendur í uppbyggingu jarðvangsins. Lagaleg verndun er í höndum sveitarfélaganna.
 • Skýr stefna um sjálfbæra þróun og stefnumótun.
 • Byggt á þeirri starfsemi sem fyrir er. Mikið er lagt upp úr fræðsluskiltum, merkingum og ýmis konar upplýsingum til gesta, s.s. leiðsögn um svæði (þá helst framkvæmt af heimamönnum) ásamt þjónustu- og gönguleiðakortum.
 • Gott og öruggt aðgengi auk áætlunar um viðhald og viðbætur í þeim efnum.
 • Megináherslan er ekki eingöngu á jarðfræði svæðisins heldur einnig á menningu og hefðir.
 • Áhersla er lögð á matvæli úr héraði, bæði í verslunum og á veitingastöðum.
 • Áhersla er einnig lögð á sölu handverks úr héraði.

Jarðvangur er EKKI:

 • Svæði sem inniheldur einungis framúrskarandi jarðminjar.
 • Stakur lítill staður sem er áhugaverður vegna jarðfræði.
 • Afgirt svæði sem er einungis fyrir vísindamenn.
 • Jarðfræðilegur þemagarður.
 • Svæði þar sem þátttaka heimamanna er engin.
 • Svæði með enga stefnumótun um sjálfbæra efnahagslega þróun.
 • Formlega lagaleg útnefning.
 • Bákn eða hít sem peningum er hent í.
 • Boð og bönn sem stýra tilveru manneskjunnar innan jarðvangsins

Hugtakið jarðvangur

er alþjóðlegt og verður til vegna vaxandi þarfar á samræmdri vernd, þróun og stjórnun margra af mikilvægustu svæðum jarðarinnar. Nú eru starfræktir 147 jarðvangar í 41 landi, samtengdir í heildstætt net víðsvegar um heiminn.

KATLA jarðvangur er fyrsti jarðvangur Íslands, stofnaður í nóvember 2010. Tæpu ári seinna, í september 2011, fékk hann aðild að samtökum evrópskra jarðvanga (EGN: European Geoparks Network) og tengdist svo alþjóðlegu neti jarðvanga (GGN: Global Geoparks Network) eftir staðfestingu og innleiðingu þess innan UNESCO árið 2015.

Árið 2012 bættist í hópinn Reykjanes Geopark. Hann var stofnaður árið 2012 af sveitarfélögunum á Suðurnesjum ásamt Ferðamálasamtökum Reykjaness, Bláa lóninu, Þekkingarsetri Suðurnesja, Keili og HS Orku. Reykjanes Geopark nær yfir allt land sveitarfélaganna og er samtals 825 km2 að stærð.

KATLA jarðvangur nær yfir 9.542 km2 landsvæði og þekur rúmlega 9% af flatarmáli landsins, frá Hvolsvelli í vestri að Skeiðarársandi í austri. Nyrsti hluti jarðvangsins teygir sig langt inn á Vatnajökul en langar strendur af svörtum sandi afmarka jarðvanginn í suðri. Þéttbýliskjarnar í Kötlu jarðvangi eru Hvolsvöllur, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur. Íbúafjöldi á svæðinu er 3.200 manns (ágúst 2019).

Hugmyndin um stofnun jarðvangs (geopark) á Suðurlandi kviknaði á vettvangi fyrsta átaksverkefnis Háskólafélags Suðurlands (www.hfsu.is) 2008.  Átaksverkefnið tók til sveitarfélaganna þriggja sem eru austast á svæðinu; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra.  Fljótlega mótaðist sú hugmynd að eitt af áhersluatriðum verkefnisins yrði eldvirkni svæðisins.  Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur var fengin til þess að gera samantekt um jarðfræði svæðisins.  Lovísa kynnti fyrir stjórn verkefnisins hugtakið European Geopark og má segja að þá hafi teningnum verið kastað.  Verkefnið fékk góðar viðtökur, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og ferðaþjónustuaðila á svæðinu, og 19. nóvember 2010 var jarðvangurinn stofnaður formlega sem sjálfseignarstofnun á fundi í Brydebúð í Vík í Mýrdal.  Nánar má lesa um tilurð verkefnisins, stöðu þess nú og framtíðarhorfur hér í greinargerð Ragnhildar Sveinbjarnardóttur ferðamálafræðings.

Ástæða er til þess að þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi stofnunar jarðvangsins.  Í stjórn átaksverkefnisins (Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðará) og undirbúningshópnum  fyrir Geopark sem var settur á stofn í kjölfar átaksverkefnisins voru þau Ásgeir Magnússon, Davíð Samúelsson, Elín Heiða Valsdóttir, Ingibjörg Eiríksdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ólafía Jakobsdóttir, Ólafur Eggertsson, Ólafur Hilmarsson, Rögnvaldur Ólafsson, Sandra Brá Jóhannsdóttir, Sif Hauksdóttir, Sigurður Elías Guðmundsson, Sigurður Sigursveinsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Pálsson, Sverrir Magnússon og Þuríður Halldóra Aradóttir.  Þá hafa sveitarstjórnir Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra 2008-2010 stutt dyggilega við verkefnið, en auk þeirra hafa Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja og Ferðamálastofa styrkt verkefnið myndarlega.

Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur samdi jarðfræðiskýrsluna í umsókninni til European Geoparks Network en auk hennar unnu að umsókninni þau Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Sigursveinsson, Steingerður Hreinsdóttir og Þuríður Halldóra Aradóttir.  Þórhildur Jónsdóttir annaðist uppsetningu umsóknarinnar til prentunar en Prentverk á Selfossi sá um prentun.

Ragnhildur Sveinbjarnardóttir hefur stýrt vinnu ofangreindra aðila allt frá miðju ári 2008 þegar hún var ráðin sem verkefnisstjóri hjá Háskólafélagi Suðurlands til að vinna að þessu verkefni.

Starfsemin í dag

Í dag starfa tveir aðilar fyrir jarðvanginn:

Berglind Sigmundsdóttir, Framkvæmdastjóri - jarðfræðingur
berglind(a)katlageopark.is 

Jóhannes Marteinn Jóhannesson, Verkefnastjóri - jarðfræðingur
johannes(a)katlageopark.is

Í jarðvanginum starfa að auki þrír fulltrúar í hlutastarfi (30%), einn sérfræðingur tilnefndur af hverju sveitarfélagi, sem aðstoða jarðvanginn með ýmis verkefni m.a. skipulagningu viðburða, markaðssetningu, útgáfu fréttabréfs, samninga við samstarfsfyrirtæki, eftirlit og uppbyggingu áfangastaða, styrkjaumsóknir o.s.frv. 

Tengiliðir jarðvangs eru:

Árný Lára Karvelsdóttir , kynningar- og markaðssfulltrúi Rangárþingi eystra
arnylara(a)hvolsvollur.is

Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs, Mýrdalshreppi
kotlusetur(a)vik.is

Þuríður Helga Benediktsdóttir, atvinnumálafulltrúi í Skaftárhreppi 
framtid(a)klaustur.is 


Skrifstofa jarðvangins er staðsett í húsnæði sveitarfélagsins Rangárþingi eystra á Hvolsvelli. (s. 488-4200) en Jóhannes er með aðstöðu í Kötlusetri og tengiliðir hver í sínu sveitarfélagi.Samstarfs- og stofnaðilar

Háskólafélag Suðurlands (www.hfsu.is)

Hugmyndin:

Bakland Háskólafélags Suðurlands er breið sunnlensk samstaða um eflingu háskólastarfs og fjölbreyttara atvinnulíf á öllu svæðinu. HfSu hyggst beita sér á öllum sviðum háskólastarfsemi.

Háskólafélag Suðurlands var stofnað af öllum sveitarfélögum á Suðurlandi utan Vestmannaeyja og stefnt er að því að afla fleiri hluthafa á svæðinu meðal fyrirtækja og stofnana.

Félagið mun hafa frumkvæði og forystu að auknum möguleikum í fræðslu og menntun, eflingu þróunarstarfs, nýsköpun og rannsóknum á Suðurlandi.  Með uppbyggingu öflugs upplýsinga- og þekkingarsamfélags hyggst félagið auka búsetugæði, auka fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja efnahag á Suðurlandi.  Félagið  mun veita einstaklingum,  stofnunum og fyrirtækjum sérhæfða og  faglega þjónustu á sviði menntunar og rannsókna, miðla upplýsingum  og  veita faglega aðstoð við umsóknir og fjármögnun rannsókna og þróunarverkefna.

Framtíðarsýn - Takmark:

Háskólafélag Suðurlands stefnir að því að vinna sér þann sess í huga vísindamanna, almennings, atvinnulífs og stjórnvalda á næstu 5 árum að vera framúrskarandi net sérhæfðar þekkingarþróunar og rannsóknarstarfsemi á náttúru, lífríki, mannlífi, atvinnu og menningu á Suðurlandi. Háskólafélagið vill efla háskólamenntun, rannsóknir og nýsköpun  á Suðurlandi og ætlar að vera eftirsóknarverður  kostur fyrir Sunnlendinga og aðra  þegar kemur að því að velja  vettvang háskólanáms eða rannsókna- og þróunarstarfa. HfSu stefnir að því að vera með dreifða starfsemi eða net sem nær um allt Suðurland og nýta kosti og möguleika upplýsingatækninnar í því skyni að byggja upp lífvænlegt þekkingarsamfélag á Suðurlandi öllu.

Stefnt er að því að samfara neti viðamikillar háskóla- og rannsóknastarfsemi nýtist aukin þekking til nýsköpunar og fjölbreytni í atvinnulífinu á Suðurlandi.


Hlutverk:

Tilgangur Háskólafélags Suðurlands er að:

 • Mynda þekkingarnet á Suðurlandi  þar sem lögð  er  áhersla á árangur við rannsóknir, menntun og  nýsköpun í  virku  samstarfi fyrirtækja, stofnana og háskóla.
 • Hækka menntunarstig og auka fjölbreytni í  atvinnutækifærum á  Suðurlandi með öflugri  upplýsingagjöf  og eftirfylgni, virkri náms- og  starfsráðgjöf og góðri aðstöðu til fjarnáms og  staðbundins náms.
 • Fjölga atvinnutækifærum á Suðurlandi sem byggja á vísinda og fræðastarfi.
 • Vera öflugur bakhjarl og hvati við sköpun tækifæra til rannsókna á náttúru, lífríki, menningu, atvinnuvegum og mannlífi á Suðurlandi.
 • Tryggja nemendum í  staðbundnu námi og fjarnámi á  háskólastigi upp  á góða möguleika hvort  sem um er að  ræða grunnnám,  framhaldsnám, símenntun eða  endurmenntun.
 • Vinna með frumkvöðlum og sprota og þekkingafyrirtækum sem vilja styrkja starfsemi sína á Suðurlandi í tengslum við stoðkerfi atvinnulífsins meðal annars með sameiginlegri sókn í sjóði til nýsköpunnar.


Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands 

Frá árinu 1998 hefur á vegum rektors Háskóla Íslands verið unnið að því að efla tengsl skólans við landsbyggðina, m.a. með því að fjölga rannsókna- og fræðasetrum Háskóla Íslands um landið.

Markmiðið með þessu kom fram í ræðu Páls Skúlasonar, þáverandi rektors Háskóla Íslands, á Austurlandi árið 1999: „Hlutverk Háskóla Íslands er og hefur alla tíð verið að þjóna allri íslensku þjóðinni. Háskólinn er þjóðskóli sem vinnur jafnt í þágu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og hinna sem búa úti á landi. Fræðastörf og þekkingarleit er ekki bara fyrir fámennan hóp fólks. Allt fólk sem vill bæta lífsskilyrði sín, treysta atvinnulíf, viðskipti og menningarlíf, hagnýtir sér í síauknum mæli alls konar fræði.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands er rannsóknastofnun sem heyrir undir háskólaráð. Rannsóknir eru meginverkefni Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands  og rannsóknasetra háskólans víðs vegar um landið. Viðfangsefnin eru fjölbreytt en á meðal þeirra eru lífríki  hafsins, umhverfi  og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði. Stofnunin byggist á rannsóknasetrum Háskóla Íslands sem eru faglega sjálfstæðar einingar.

Stofnunin er vettvangur samstarfsverkefna Háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni. Markmið stofnunarinnar er enn fremur að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf.

Forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er Sæunn Stefánsdóttir.

Birna Gunnarsdóttir verkefnisstjóri hjá Vísinda- og nýsköpunarsviði Háskóla Íslands sinnir stjórnsýslustörfum fyrir stofnunina.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands var sett á fót 2001 með stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Haustið 2018 eru rannsóknasetrin níu talsins á 10 starfsstöðvum um landið.Rangárþing eystra (www.hvolsvollur.is)

Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002. Þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur Landeyjahreppur, Vestur Landeyjahreppur, Austur Eyjafjallahreppur og Vestur Eyjafjallahreppur.

Rangárþing eystra nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur og þekkta sögustaði

Ferðaþjónusta í Rangárþingi eystra er í miklum blóma og fyrir gesti svæðisins er margt að sjá og gera. Í sveitarfélaginu eru margar þekktari náttúruperlur eins og t.d. Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógarfoss, Seljalandsfoss og Paradísarhellir en auk þess er að finna einstakar náttúru- og jarðfræðiminjar sem eru minna þekkt eins og Mögugilshelli sem talin er vera stærsti náttúrugerði móbergshellir í norður Evrópu og Drumbabót, þar sem finna má minjar um aldagamlan skóg. Auk þessa minja teygir sögusvið Brennu-Njáls sögu sig um allt svæðið og gestum gefin kostur á að upplifa söguna á lifandi og eftirminnilegan hátt. Afþreying er af ýmsu tagi og hentar öllum aldurshópum, s.s. söfn, sýningar, sundlaugar, hestaleigur, áhugaverðar gönguleiðir, íþróttamiðsstöð, golf, gallerí, veiði og margt fleira. Sex félagsheimili eru í sveitarfélaginu með aðstöðu fyrir ættarmót og aðra viðburði.

Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitafélagsins og þar er stjórnsýslan. Helstu atvinnuvegir eru iðnaður, verslun og þjónusta. Byggð hófst á Hvolsvelli þegar Kaupfélag Hallgeirseyjar hóf þar verslun árið 1930. Á Hvolsvelli er grunnskóli, leikskóli, sýslumannssetur, dýralæknir,heilsugæslustöð, apótek, sundlaug, íþróttahús, verslun, banki, veitingastaðir, ofl.

Íbúar í Rangárþingi eystra eru 1.963 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands frá 1. desember 2019. Í kauptúninu Hvolsvelli eru um 1.000 íbúar.Mýrdalshreppur (www.vik.is)

Texti í vinnslu


 

Skaftárhreppur (www.klaustur.is)

Skaftárhreppur varð til árið 1990 við sameiningu fimm hreppa, Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvalla-, Skaftártungu- og Álftavershrepps. Hann er austurhluti V-Skaftafellssýslu og afmarkast af Blautukvísl á Mýrdalssandi í vestri og Sandgýgjukvísl á Skeiðarársandi í austri. Hann dregur nafn sitt af ánni Skaftá, sem á aðalupptök sín undir Skaftárjökli og rennur til sjávar í Veiðiósi og Kúðaósi, en lengd hennar frá upptökum til ósa er um 115 km.

Í dag eru íbúar Skaftárhrepps um fimmhundruð og hefur aðeins farið fækkandi síðustu ár. Aðalatvinnuvegur svæðisins er landbúnaður en ferðaþjónusta og fiskeldi eru vaxandi atvinnugreinar. Eini þéttbýliskjarninn í hreppnum er Kirkjubæjarklaustur, eða “Klaustur” eins og það er nefnt í daglegu tali. Á Klaustri er stunduð verslun, marvísleg þjónusta og iðnaður.

Grunnskóli Skaftárhrepps, Kirkjubæjarskóli á Síðu, er á Kirkjubæjarklaustri en þar geta börn stundað nám allan grunnskólann eða út tíunda bekk. Kirkjubæjarskóli var samvinnuverkefni þeirra hreppa sem sameinuðust í Skaftárhrepp og var settur á laggirnar árið 1974. Leikskólinn Kæribær er á Klaustri en þar læra yngstu börnin að taka sín fyrstu skref út í lífið. Á Klaustri er líka hjúkrunar- og dvalarheimilið Klausturhólar.


Skógasafn (www.skogasafn.is)

Byggðasafnið í Skógum á sér nú rúmlega hálfrar aldar sögu, en það var formlega stofnað árið 1949. Á þeim tíma var safnið í kjallaraherbergi í Héraðskólanum í Skógum. Það var opnað til sýningar 1. desember sama ár. Frumkvöðull að stofnun safnsins er safnstjórinn Þórður Tómasson og hefur hann átt veg og vanda af velferð safnsins allt frá upphafi til dagsins í dag.

Safnið er í eigu Héraðsnefnda Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrstu árin var komið upp sýningum á munum safnsins í kennslustofum Héraðsskólans á sumrin í samvinnu við sumarhótelið í Skógum. Fljótlega varð þó ljóst að safninu var ekki sniðinn stakkur eftir vexti því það óx ört. Barnið óx en brókin ekki.

Árið 1952 fékk safnið að gjöf áttæringinn Pétursey frá Jón Halldórssyni kaupmanni í Suður-Vík. Varð þá brýnt að koma safninu í eigið húsnæði. Því fór svo að árið 1955 var reist myndarlegt safnhús sem rúmaði Pétursey og gott betur. Þar var ekki látið staðar numið þar sem Þórður Tómason hélt ótrauður áfram að viða að sér fleiri munum og fljótlega fór enn að þrengja að.
Með byggingu safnhússins hófst uppbygging á gömlum bæjarhúsum á safnsvæðinu. Árið 1968 var fyrsta húsið flutt að Skógum og endurreist þar. Var það skemma frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum sem langafi Þórðar byggði á bæ sínum um 1840.

Fljótlega komu svo skarsúðarbaðstofa, hlóðaeldhús, stofa og búr. Þessi voru þó aðeins fyrstu húsin af mörgum og enn er að bætast við. Nú síðast kirkja og skólahús. Allt voru þetta hús sem voru flutt úr Rangárþingi og Vestur- Skaftafellssýslu og endurbyggð í Skógum.

Árið 1990 var svo ákveðið að reisa viðbyggingu við safnhúsið svo að safnið fengi notið sín sem skyldi. Áraskipið Pétursey var flutt í húsið og stendur þar með rá og reiða. Með tilkomu þessa húss jókst rými verulega og varð þá fyrst gerlegt að skipta safninu niður í deildir, það er sjósóknardeild, landbúnaðardeild og svo framvegis. Einnig var stofnað skjalasafn fyrir Rangárvalla- sýslu og Vestur-Skaftafellssýslu í kjallara nýja hússins.

Árið 2002, þann 20. júlí, var opnað samgöngusafn í miklu sýningarhúsi sem reist var á safnsvæðinu. Þetta er safn samgöngu- og tækniminja, auk sýningardeildar um þátt hestsins í ferðum og flutningum og um ferjuflutninga. Markús Jónsson, söðlasmiður í Borgareyrum (d. 1888), á sérstakt sýningarrými. Veitingasala og verslun er hér innan veggja.

Safnið hefur tekið að sér rekstur skólabygginga í Skógum eftir að framhaldsskólinn var lagður niður. Hefur Sverrir Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Skógaskóla um mörg ár, tekið við sem framkvæmdastjóri safnsins.


Kötlusetur (www.kotlusetur.is)

Föstudaginn 19. nóvember 2010 var haldinn stofnfundur sjálfseignarstofnunarinnar Kötluseturs í Brydebúð í Vík í Mýrdal.  Skv. skipulagsskrá er tilgangur Kötluseturs að byggja upp og reka atvinnustarfsemi á sviði náttúruvísinda, land- og ferðamálafræða og menningarmála í Vík.  Þá er markmið félagsins að vinna að rannsóknum á ofangreindum sviðum og gera afraksturinn sýnilegan almenningi.  Stofnaðilar Kötluseturs eru þrír; Menningarfélag um Brydebúð, Mýrdalshreppur og Háskólafélag Suðurlands.  Menningarfélagið leggur húseigninga Brydebúð (brydebud.vik.is)  til setursins og Mýrdalshreppur leggur til húseignirnar Skaftfellingsbúð og Halldórsbúð.   Vélskipið Skaftfellingur, sem Sigrún Jónsdóttir listamaður flutti frá Vestmannaeyjum árið 2001, er til húsa í Skaftfellingsbúð og er nú unnið að endurbótum á húsnæðinu á vegum Mýrdalshrepps.

Fimm manna stjórn hefur verið tilnefnd af stofnaðilum til að stýra Kötlusetri, en það eru Ásgeir Magnússon og Elísabet Ásta Magnúsdóttir tilnefnd af Mýrdalshreppi, Þórir Kjartansson og Æsa Gísladóttir tilnefnd af Menningarfélagi um Brydebúð, og Sigurður Sigursveinsson tilnefndur af Háskólafélagi Suðurlands.


Kirkjubæjarstofa (www.klaustur.is)

Kirkubæjarstofa var stofnuð sem rannsókna- og menningarsetur á Kirkjubæjarklaustri að frumkvæði dugmikilla heimamanna með dyggum stuðningi nokkurra áhugasamra vísindamanna, sem hafa stundað hluta af rannóknum sínum á vettvangi í héraðinu. Telja þessir frumkvöðlar að náttúra og saga héraðsins sé um margt svo sérstæð að full ástæða sé til að hafa í aðstöðu til að tengja störf vísindafólks á vettvangi héraðinu enn sterkari böndum og skapa um leið betri aðstöðu til að kynna hina sérstæðu náttúru og sögu fyrir gestum héraðsins.

Starfsemi Kirkjubæjarstofu hófst 1.júli 1997, þá hafði verkefnisstjórn unnið að undirbúningi starfseminnar frá 1. mars 1997. Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofnunin Kirkjubæjarstofa, sem hefur komið upp húsnæði og aðstöðu fyrir starfsemi stofunnar á Kirkjubæjarklaustri. Einnig hefur verið tilnefnd ráðgjafanefnd fyrir starfsemina og í þeirri ráðgjafanefnd eiga eftirtaldar stofnanir fulltrúa:

Háskóli Íslands og ýmsar stofnanir hans, Landgræðsla ríkisins, Náttúrufræðistofnun Ísland, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúruvernd ríkisins, Orkustofnun, Norræna Eldfjallastöðin, Landsvirkjun, Byggðastofnun, Umhverfisráðuneytið, Verðurstofa Íslands,Ferðamálaráð, Þjóðminjasafn Íslands.

Markmið starfseminnar er að efla og styðja rannsóknir og lifandi fræðslu um náttúrufar, sögu og menningu héraðsins. Lögð verður áhersla á starfsemin sé í fullu samræmi bæði við áherslur í stefnumörkun sveitarfélagsins og kröfur og aðstæður í nútíma upplýsingar– og þekkingarþjófélagi. Kirkjubæjarstofa hyggst einnig með starfsemi sinni stuðla að auknu streymi ferðafólks í héraðið og lengingu á viðverutíma þess með nýju og endurbættu sýningarefni.

Markmiðum þessum hyggst Kirkjubæjarstofa ná á eftirfarandi hátt :

 1. Söfnun, flokkun og skráning gagna um náttúru, menningu og sögu héraðsins.
 2. Öflun nýrrar þekkingar með þvi að stuðla að frekari rannsóknum í samstarfi við innlendar og erlendar vísindastofnanir.
 3. Að standa fyrir ráðstefnum og fræðslufundum um náttúru, menningu og sögu og héraðsins.
 4. Kynningar- og fræðslustarfsemi og rekstur sýningarsalar.
 5. Efling ferðaþjónustu með samvinnu við ferðamálafélag Skaftárhrepps.

_____________________________________________________________________________________________________

Proud Partner

Undir "Vörur úr héraði", "Afþreying" og "Gisting" finnur þú samstarfsaðila Kötlu Jarðvangs sem tileinka sér sjálfbæra ferðamennsku, náttúruvernd og kynna vörur, mat og list úr héraðinu, eða bjóða uppá fræðandi afþreyingu eða ferðir.

Pplogo2