Hugmyndin um stofnun jarðvangs (geopark) á Suðurlandi kviknaði á vettvangi fyrsta átaksverkefnis Háskólafélags Suðurlands (www.hfsu.is) 2008. Átaksverkefnið tók til sveitarfélaganna þriggja sem eru austast á svæðinu; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Fljótlega mótaðist sú hugmynd að eitt af áhersluatriðum verkefnisins yrði eldvirkni svæðisins. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur var fengin til þess að gera samantekt um jarðfræði svæðisins. Lovísa kynnti fyrir stjórn verkefnisins hugtakið European Geopark og má segja að þá hafi teningnum verið kastað. Verkefnið fékk góðar viðtökur, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og ferðaþjónustuaðila á svæðinu, og 19. nóvember 2010 var jarðvangurinn stofnaður formlega sem sjálfseignarstofnun á fundi í Brydebúð í Vík í Mýrdal.