Jarðvangsvikan 2019 - EGN week 2019.

Jarðvangsvikan er sameiginlegt átak innan netverks Evrópskra jarðvanga (EGN) og er haldið í jarðvöngum víðsvegar um Evrópu og heiminn allann. Fjölbreytt dagskrá er á boðstólum þar sem einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og fjölmargir aðilar taka höndum saman og virkja svæðið og allt það áhugaverða sem á því finnst, með viðburðum sem auglýstir eru í heila viku. Í Kötlu jarðvangi hefst dagskráin þann 27. apríl með árlegu Hjörleifshöfðahlaupi eins og lesa má nánar um hér að neðan, og stendur hún til 4. maí. Haldin verður fræðslu- og skemmtidagskrá 1. maí í miðstöðinni við Þorvaldseyri þar sem möguleiki er á að halda kynningar, fræðsluerindi, og í raun allt milli himins og jarðar.

Allir eru velkomnir að taka þátt í vikunni góðu og geta áhugasamir sent skilaboð á info@katlageopark.is fyrir skráningu á viðburði eða haft samband í síma 862-4066.

Smellið hér til að hlaða niður dagskránni eða skoða í vafra.


27. apríl kl. 11:00 - Hjörleifshöfðahlaupið

Hjörleifshöfðahlaupið (einnig þekkt sem Kötlu jarðvangshlaupið) fer fram laugardaginn 27. apríl 2019 kl 11:00.
Hlaupið er um svæði Hjörleifshöfða sem er um 10-15 mínútna akstur austan við Vík (um 15 km). Hlaupaleiðin er virkilega falleg og bráðskemmtilegt er að hlaupa á þessu svæði. Í góðu veðri er frábært útsýni til allra átta, að Mýrdalsjökli og Kötlu og einnig um svörtu sandana. Sagt er að yfirnáttúruleg öfl séu við Hjörleifshöfða sem gera það að verkum að andrúmsloftið þar er orkugefandi en jafnframt einstaklega afslappað og þeir sem koma þangað einu sinni, geta ekki beðið eftir að heimsækja staðinn á ný!

Vegalengdir

Tvær leiðir verða í boði, 7 km og 11 km. Annars vegar er hægt að hlaupa 7 km hring um höfðann á flatlendi í sandi með sama upphafs- og endapunkt. Ef áhugi er fyrir hendi, má bæta 4 km við og fara upp á höfðann, ca. 220m hækkun, og enda svo í rásmarki á flatlendi.

Flokkaskipting

Tími verður mældur hjá öllum og úrslit birt eftir aldursflokkum:
• 14 ára og yngri • 15-18 ára • 19-39 ára • 40-49 ára • 50-59 ára • 60 ára og eldri •

Skráning & Þátttökugjald

Forskráning verður á hlaup.is. Forskráning á netinu er opin til kl. 20 föstudaginn 26. apríl.Einnig er hægt að skrá sig hjá Kötlu Geopark með því að senda tölvupóst á beata@vik.is til kl. 14, föstudaginn 26. apríl.

Þátttökugjald er 2.500 fyrir 15 ára og eldri (f. 2004 og fyrr) og 1.500 kr fyrir 14 ára og yngri (f. 2005 og síðar).
Að hlaupi loknu býðst þátttakendum að þiggja súpu á veitingastaðnum Víkurskála/Ströndinni í Vík og einnig verður ókeypis í sundlaugina í Vík í boði Mýrdalshrepps.

Verðlaun eru veitt fyrir skjótustu skokkarana. Nánari upplýsingar um hlaupið má finna inni á hlaup.is eða með því að smella hér. 

Aðrar upplýsingar

Frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal er um 2,5 klukkustunda akstur. Fjölbreyttir gistimöguleikar eru á svæðinu og eru nánari upplýsingar um það að finna á www.visitvik.is og www.katlageopark.is en einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið info@vik.is til að fá nánari upplýsingar.

Hjörleifshöfðahlaupið er einn af hápunktum jarðvangsvikunnar sem er haldin dagana 27. apríl til 4. maí þetta árið. Ýmsir og fjölbreyttir viðburðir verða á boðstólnum fyrir alla þá sem hafa áhuga. Fylgist með uppfærðri dagskrá jarðvangsvikunnar á www.katlageopark.is og einnig á samfélagsmiðlum undir #GeoWeek og #KatlaGeoWeek. Haldið er upp á jarðvangsvikur á hverju ári, í öllum jarðvöngum!

Allir sem ljúka hlaupi fá viðurkenningarpening að launum. 

Vígsla á nýjum FOLF velli í Vík - 27. apríl kl. 17:00 

Jaðarsportklúbburinn Víkursport vígir flúnkunýjan FOLFvöll í syngjandanum í Vík. Fjörið hefst kl. 17:00, heitt grill og hamborgarar í boði hreppsins fyrir folfara og áhorfendur. Þeytidiskar verða á staðnum í takmörkuðu upplagi. Sameiginlegur viðburður Geovikunnar og Vor í Vík.

Skógasafn - 27. apríl 

15% afsláttur af aðgöngumiða. Auk tilboðsins verður stærsta geymsla safnsins opnuð frá 13:00-15:00 fyrir áhugasama. Í geymslum Skógasafns eru ýmsir gripir varðveittir sem ekki eru á sýningu. Ekki missa af!

Ganga um Hamragarðaheiði - 28. apríl kl. 10:00

Gengið verður á Hamragarðaheiði ofan Seljalandsfoss og virðum við magnað útsýni fyrir okkur í vestur, suður og austur. Endað er niður við Núp undir Eyjafjöllum. Leiðsögumaður er Einar Skúlason.

Lýsing: Bílum lagt við afleggjarann upp á Hamragarðaheiði (rétt norðan við Hamragarða og Seljalandsfoss) og svo gengið eftir veginum upp á heiðina að grjótnámunni sem notuð var fyrir Landeyjahöfn. Frá námunni er gengið í austur og komið fram á brún Eyjafjalla fyrir ofan bæinn Hvamm. Sést þar vel yfir Vestmannaeyjar er þær liggja í vari stutt frá landi og einnig sjást blómlegir bæir og grösug lönd undir Eyjafjöllum. Þaðan er gengið upp fyrir fjallið Smyril og komið aftur fram á brún ofan Núps og sést þaðan austur í Mýrdal. Áfram er gengið í austur og svo niður fyrir brúnir meðfram Írá og hennar fallegu fossum. Við tökum rútu aftur á upphafsstað og greiða þarf fyrir þátttöku í göngunni. 

Vegalengd 16 km, hækkun ca 500 m og göngutími 5-6 tímar. Engar alvarlegar hindranir, en vegalengd og hækkun getur verið erfið ef fólk er ekki í æfingu

Verð er kr. 2500 samtals fyrir göngu og rútu til baka á upphafsstað. Hægt er að greiða með greiðslukorti með því að smella hér. Einnig er hægt að millifæra upphæðina á reikning: 0515-26-530314 kt. 530314-0650 og senda staðfestingu á einarskula@hotmail.com

Sögusetrið á Hvolsvelli (28. apríl)

Verður með sérlegt tilboð á Börger&Bjór fyrir þreytta göngugarpa og alla þá sem borða hamborgara að staðaldri og hafa gott af einum øl eða svo.

Alþjóðlegur plokk dagur (28. apríl)

Hist við íþróttahúsið á Klaustri kl. 15:00. Við hvetjum alla til að plokka plastið um allan jarðvanginn í tilefni dagsins.  Hefjist plokkið! 

Ratleikur Vatnajökulsþjóðgarðs (29. apríl)

Mánudaginn 29 apríl, í tilefni Vorhátíðar Kötlu jarðvangs verður starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs með ratleik við Skaftárstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Leikurinn verður í gangi þann tíma sem Skaftárstofa er opin eða frá 9 til 14 og er hann einkum ætlaður grunnskólanum en að sjálfsögðu eru allir velkomnir og hvattir til að vera með! Allir þátttakendur fá viðurkenningu fyrir komuna auk þess sem þrenn útdráttarverðlaun verða veitt. -Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs

Ganga á Þríhyrning með Midgard Adventures (30. apríl)

Fyrir okkur sem búum á Hvolsvelli er Þríhyrningur eitt fallegasta fjall landsins. Fjallið er um 680 metrar á hæð, stendur eitt og sér og frá toppi þess því mjög víðsýnt í góðu skyggni. Gangan er tiltölulega auðveld. Uppgangan tekur um 1-1,5 klst. Akstursvegalengd frá Hvolsvelli er um 18 km. Heildartími ferðar áætluð 4 - 5 klst, þar af heildartími göngu um 2,5 klst, heildartími aksturs um 1 klst og rest til að njóta, háð veðri. Muna eftir nesti sem hæfir hverjum

Lýsing: 16:00 - Hittumst á Dufþaksbraut 14 í Midgard Base Camp á Hvolsvelli. Vænlegt væri að mæta tímanlega til að sýna þeim staðinn sem ekki hafa komið áður. Kaffi, te og kleinur í boði Midgard. Safnast verður í einkabíla, og/eða bíl frá Midgard Adventure eftir fjölda. Göngukostnaður eru 1000.- kr og greiðist á staðnum.

Grófar tímasetningar:

16:30 Brottför frá Midgard Base Camp

17:15 Ganga á Þríhyrning hefst frá Fiská

19:30 Áætluð lok göngu

20:00 Áætluð koma á Midgard Base Camp. Burger, bjór og karókí !!

Kynningarviðburður RURITAGE miðstöðvar á Klaustri ásamt heimsfrumsýningu stuttmyndar um Mr. Moss. - 30. apríl kl 19:30~22:00 

Klukkan 18:00 hefst fjörið. Kynning á alþjóðlega menningarverkefninu RURITAGE sem styrkt er af Horizon 2020 innan ESB. Farið verður yfir aðalatriði verkefnisins, sértækar aðgerðir Kötlu jarðvangs og hlutverk, ásamt því að ræða þau tækifæri sem skapast í kjölfar þess og ávinning fyrir íbúa og samfélag. 

Í samstarfi við Frið & Frumkrafta, Vatnajökulsþjóðgarð og Hótel Klaustur verður heimsfrumsýning á stuttmynd um Mr. Moss.
Happy hour á barnum, léttar veitingar úr héraði og skemmtidagskrá!

 

"Kaffi og Kynning" á Þorvaldseyri - 1. maí kl. 14:00

Klukkan 14:00 hefst dagskrá fræðslu og gleði. Viðburðurinn er haldinn á tilvonandi gestastofu Kötlu jarðvangs við þjóðveginn þar sem áður var Eyjafjallajökull Erupts. Áhugaverðir fyrirlesarar mæta á staðinn og fræða okkur um ýmis mál er tengjast svæði jarðvangsins.

Skemmtilegt og fræðandi kvöld í vændum ásamt laufléttum veitingum og sitthvað spennandi inn á milli. Á veggjum munu ljósmyndir hanga eftir Kat Deptula frá Vík. 

Dagskrárdrög:

14:00 - Stutt ávarp og setning.

14:15 - Áhugaverð erindi frá samstarfsaðilum. 

15:15 - kaffipása. Léttar veitingar og gómsæti.

15:30 - Helstu jarðfæðilegu sérkenni Kötlu jarðvangs verða skýrð með tilvísun í greiningu á möttulstraumum undir jarðskorpuflekunum.

- Katla Geopark, starfið og verkefnin. GeoVR sýndarveruleiki til prufu fyrir þá sem þora. 


MUGISON tónleikar í Midgard Base Camp - 3. maí kl. 21:00

Hinn mikil meistari Mugison verður með tónleika á Midgard Base Camp í tónleikaröð sinni um landið. Húsið opnar um morguninn en tónleikarnir byrja klukkan 21:00. Glæsilegir tónleikar sem enginn tónlistarunnandi má missa af.   

Íslensk leiðsögn með jarðfræðingi í boði LAVA Centre - 4. maí kl. 14:00 & 16:00 

Sigurður Jón Björgvinsson jarðfræðingur mun leiða áhugasama í gegnum stórbrotna jarðfræði Íslands með sérstaka áherslu á jarðvanginn. Tvær leiðsagnir verða um daginn, sú fyrri klukkan 14 og sú seinni tveimur tímum síðar á sextánda tímanum. 

Torfæruball með Kaleb Joshua í fararbroddi á Sögusetrinu - 4. maí kl. 21:00 - 03:00

Frítt inn og opið til 03:00. Torfæran á Hellu fer fram fyrr um daginn og er því tilvalið að henda í eitt ball og kveðja frábæra viku og torfærudag með glæsilegu dansiballi á Sögusetrinu


Tilboð í tilefni jarðvangsvikunnar - TILBOÐ

ZipLine Iceland í Vík verður með frítt fyrir börn í fylgd fullorðinna yfir alla jarðvangsvikuna. ZipLine. 

Icelandic Lava Show - 20% afsláttur af sjóðheitri sýningu með kóðanum GEOPARK2019 þegar bókað er á netinu.

Súpufélagið með 20% afslátt af matseðli yfir alla jarðvangsvikuna!

LAVA Centre - 20% afsláttur á sýninguna þegar bókað er á netinu með kóðanum KATLA2019.

Eldstó Art Café með Happy Hour frá kl. 16-18 alla daga og dagleg tilboð af matseðli yfir jarðvangsvikuna.

Sögusetrið verður með frían aðgang á Njálusýninguna 1. & 2. maí. Á staðnum er billjarðborð, píluspjald og axarkast fyrir þá sem þora!

Volcano Huts í Húsadal bjóða upp á ókeypis gönguleiðsögn um Þórsmörk yfir alla jarðvangsvikuna fyrir gesti og gangandi. Nánari upplýsingar á www.volcanohuts.com