21. júní 2017

Víkurskóli orðinn Jarðvangsskóli Kötlu UNESCO jarðvangs

Miðvikudaginn 24. maí varð Víkurskóli formlega jarðvangsskóli Kötlu Jarðvangs.  Brynja Davíðsdóttir framkvæmdastjóri jarðvangsins og Þorkell Ingimarsson skólastjóri Víkurskóla undirrituðu samstarfssamning þess efnis.  Undirritunin fór fram á Sólheimasandi með heiðarlönd Ytri-Sólheima í baksýn.  Þannig stóð á að nemendur skólans voru í vettvangsferðum þennan dag og fór vel á því að undirritunin færi fram úti í náttúrunni í miðjum jarðvanginum.  Það er mikill heiður fyrir Víkurskóla að fá þessa viðurkenningu og mun hún svo sannarlega styrkja það góða starf sem unnið hefur verið innan skólans og tengist beint náttúru okkar svæðis.  Hefð hefur skapast fyrir því að sinna sérstökum náttúrutengdum verkefnum í svokallaðri jarðvangsviku. Jarðvangsvikan okkar er haldin hátíðleg síðari hluta aprílmánaðar og tengist hún ár hvert degi umhverfisins sem er þann 25.apríl. Þann dag er einmitt fæddur sá stórmerki maður Sveinn Pálsson (1762-1840) sem var þekktur læknir (þó aldrei fengi hann læknaprófið) og  nátturufræðingur og bjó hér í Vík og var grafinn að Reyniskirkju í Mýrdal. Jarðvangsvikan er orðin fastur liður á skóladagatali Víkurskóla og ár hvert er skólastarfið brotið upp þessa viku. Fengnir eru  leiðbeinendur og fyrirlesarar til okkar eftir því sem unnt er eða ýmislegt sem tengist jarðvanginum unnið í skólanum og foreldrum og öðrum góðum gestum síðan boðið að skoða og njóta. (höf. Þorkell)

Twitter Facebook
Til baka