KatlawelcomeHugtakið jarðvangur er alþjóðlegt og verður til vegna vaxandi þarfar á samræmdri vernd, þróun og stjórnun margra af mikilvægustu svæðum jarðarinnar. Nú eru starfræktir 140 jarðvangar í 38 löndum, samtengdir í heildstætt net víðsvegar um heiminn.

KATLA jarðvangur er fyrsti jarðvangur landsins. Hann var stofnaður í nóvember 2010 og í september 2011 fékk hann aðild að samtökum evrópskra jarðvanga (European Geoparks Network) og um leið tengdist alþjóðlegu neti UNESCO fyrir jarðvanga (Global Geoparks Network).

Árið 2012 bættist í hópinn Reykjanes Geopark (www.reykjanesgeopark.is). Hann var stofnaður árið 2012 af sveitarfélögunum á Suðurnesjum ásamt Ferðamálasamtökum Reykjaness, Bláa lóninu, Þekkingarsetri Suðurnesja, Keili og HS Orku. Reykjanes Geopark nær yfir allt land sveitarfélaganna og er samtals 825 km2 að stærð.

KATLA jarðvangur nær yfir 9.542 km2 landsvæði og þekur rúmlega 9% af flatarmáli landsins, frá Hvolsvelli í vestri að Skeiðarársandi í austri. Nyrsti hluti jarðvangsins teygir sig langt inn á Vatnajökul en langar strendur af svörtum sandi afmarka jarðvanginn í suðri. Þéttbýliskjarnar í Kötlu jarðvangi eru Hvolsvöllur, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur. Íbúafjöldi á svæðinu er 2.700 manns.

Hugmyndin um stofnun jarðvangs (geopark) á Suðurlandi kviknaði á vettvangi fyrsta átaksverkefnis Háskólafélags Suðurlands (www.hfsu.is) 2008.  Átaksverkefnið tók til sveitarfélaganna þriggja sem eru austast á svæðinu; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra.  Fljótlega mótaðist sú hugmynd að eitt af áhersluatriðum verkefnisins yrði eldvirkni svæðisins.  Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur var fengin til þess að gera samantekt um jarðfræði svæðisins.  Lovísa kynnti fyrir stjórn verkefnisins hugtakið European Geopark og má segja að þá hafi teningnum verið kastað.  Verkefnið fékk góðar viðtökur, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og ferðaþjónustuaðila á svæðinu, og 19. nóvember 2010 var jarðvangurinn stofnaður formlega sem sjálfseignarstofnun á fundi í Brydebúð í Vík í Mýrdal.  Nánar má lesa um tilurð verkefnisins, stöðu þess nú og framtíðarhorfur hér í greinargerð Ragnhildar Sveinbjarnardóttur ferðamálafræðings.

Ástæða er til þess að þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi stofnunar jarðvangsins.  Í stjórn átaksverkefnisins (Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðará) og undirbúningshópnum  fyrir Geopark sem var settur á stofn í kjölfar átaksverkefnisins voru þau Ásgeir Magnússon, Davíð Samúelsson, Elín Heiða Valsdóttir, Ingibjörg Eiríksdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Ólafía Jakobsdóttir, Ólafur Eggertsson, Ólafur Hilmarsson, Rögnvaldur Ólafsson, Sandra Brá Jóhannsdóttir, Sif Hauksdóttir, Sigurður Elías Guðmundsson, Sigurður Sigursveinsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Pálsson, Sverrir Magnússon og Þuríður Halldóra Aradóttir.  Þá hafa sveitarstjórnir Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra 2008-2010 stutt dyggilega við verkefnið, en auk þeirra hafa Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja og Ferðamálastofa styrkt verkefnið myndarlega.

Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur samdi jarðfræðiskýrsluna í umsókninni til European Geoparks Network en auk hennar unnu að umsókninni þau Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Sigursveinsson, Steingerður Hreinsdóttir og Þuríður Halldóra Aradóttir.  Þórhildur Jónsdóttir annaðist uppsetningu umsóknarinnar til prentunar en Prentverk á Selfossi sá um prentun.

Ragnhildur Sveinbjarnardóttir hefur stýrt vinnu ofangreindra aðila allt frá miðju ári 2008 þegar hún var ráðin sem verkefnisstjóri hjá Háskólafélagi Suðurlands til að vinna að þessu verkefni.

Í dag eru 2 einstaklingar í fullu starfi fyrir jarðvanginn, Berglind Sigmundsdóttir jarðfræðingur og starfandi framkvæmdarstjóri og Hörður Bjarni Harðarson verkefnastjóri og jarðfræðingur.