Vatnsdalshellir í Fljótshlíð er á meðal þeirra mörgu manngerðu hella sem finnast hér um slóðir. L Stendur hann rétt fyrir ofan bæinn Vatnsdal um 17 km. frá Hvolsvelli. Um það bil 20 m frá veginum upp að Þríhyrningi er hellirinn sem fáir vita af og sést tæplega úr bíl nema maður viti af honum. Lítið gat sést framan í hól einum, en þegar inn er komið er hellirinn nokkuð stór og þar getur að líta op upp í gegnum þakið, líklega var það reykop ofan við hlóðir. Hellirinn hefur þó verið merktur til að auka aðgengi.

 

Til er þjóðsaga um Vatnsdalshelli;

Kerling ein, finnsk að ætt, bjó með dóttur sinni í Kaupmannahöfn og leigðu þær út herbergi fyrir námsmenn. Einn veturinn bjó hjá þeim íslendingur. Er fór að líða á veturinn fór hann að furða sig á því að á borðum var alltaf nýr silungur eða úrvals lambaket. Ekki fékk hann nein svör er hann spurði um hvernig stæði á því. Dóttir konunnar og námsmaðurinn íslenzki fóru nú að slá sér eitthvað upp saman og hugðu mæðgurnar að þar væri e.t.v. kominn væntanlegur tengdasonur. Eitt sinn er hann spurði um matföngin þá leiddu þær mæðgur hann fram í eldhús og sýndu honum þar ofurlitla holu ofaní eldstónna. Þar ofaní renndu þær færi og dorguðu upp spriklandi silungi. Hann varð af vonum undrandi, en þær tjáðu honum að þær seiddu silunginn til sín úr Vatnsdalstjörn á Íslandi, en kjötið fengu þær þannig, að þær seiddu til sín vænsta sauðinn úr Vatnsdalshelli. Stráki leist ekki á blikuna og um vorið stakk hann af frá kvonfangi sínu heim til Íslands. Er þangað kom fór hann að Vatnsdal og sagði heimilisfólki frá seiðkerlingunum og hættu menn þá að undrast óútskýranlegt sauðahvarf og var hætt að nota hellinn sem fjárhús. Er seiðkerlingin varð vör við þetta, varð hún svo reið að hún lagði það á vatnið, að allur silungur í því skildi verða að hornsílum og hefur svo verið síðan.

Vatnsdalshellir er friðlýstur.

Sjá á korti

63.783475104, -19.991974227|Vatnsdalshellir|Jarðfræði og menning|/media/83777/Vatnsdalshellir_op.jpg?w=250&h=109&mode=crop|/jardvaettin/vatnsdalshellir/